Skólareglur

Í janúar 2009 var tekin upp SMT-skólafærni í Lundarskóla. Markmið SMT-skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir óæskilega hegðun nemenda með því að gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti, kenna og þjálfa félagsfærni og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Ákvæði um skólareglur Lundarskóla og viðurlög við þeim má sjá hér fyrir neðan. Einnig er að finna á heimasíðu skólans reglutöflu SMT sem sjá má hér.

Ákvæði um skólareglur:

  1. Í Lundarskóla er í gildi punktakerfi á unglingastigi.
  2. Skólareglur Lundarskóla og punktakerfi gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans.
  3. Gerist nemandi brotlegur að öðru leyti en getið er í reglum þessum, er unnið samkvæmt 30. grein laga um grunnskóla nr. 91/2008 og nánari ákvæðum reglugerðar um skólareglur og aga í grunnskólum.
  4. Stjórnendur skólans áskilja sér þann rétt að endurskoða reglur eftir því sem við á hverju sinni.

Viðurlög við brotum á skólareglum

A  Verði misbrestur á að tilkynna forföll er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða.

B  Ef nemandi veldur verulegri truflun í kennslustund og lætur sér ekki segjast við áminningu kennara er heimilt að vísa nemandanum úr tíma. Komi til slíkrar brottvísunar skal nemandi fara tafarlaust til skrifstofu deildarstjóra/skólastjóra. Umsjónarkennara skal gerð grein fyrir agabroti nemandans og forráðamenn látnir vita.

C  Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna. Týni nemandi bók sem skólinn lánar eða veldur á henni skemmdum skal viðkomandi bæta tjónið.

D  Verði nemandi uppvís að notkun fjarskiptatækja eða tölvuleiktækja í kennslustund gilda „Símareglur Lundarskóla“

E  Gerist nemandi sekur um alvarleg brot á skólareglum eða lögum almennt hvar sem er á vegum skólans er haft samband við forráðamenn og þeir beðnir að ná í nemandann aða lögregla kölluð til séu atvik þess eðlis. Brjóti nemandi reglur skólans á ferðalögum má gera ráð fyrir að nemandinn verði sendur heim á kostnað forráðamanna.

F  Brjóti nemandi reglur skólans, færir kennari, deildarstjóri/skólastjóri það inn í persónumöppu nemandans.

Ef nemandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er honum veitt áminning. Beri áminningin ekki viðunandi árangur er heimilt að vísa honum tíma­bundið úr skóla meðan leitað er úrlausna á hans málum enda verði forráðamönnum og fræðsluyfirvöldum tilkynnt tafarlaust um ákvörðun skólayfirvalda og veittur and­mælaréttur.

Kynning á skólareglum

Farið er yfir skólareglurnar/reglutöfluna og punktakerfið með nemendum í upphafi skólaárs, oftast fyrsta kennsludaginn. Ákveðin eftirfylgni er svo skv. SMT-árshjólinu allan veturinn. Reglutaflan hangir uppi í kennslustofum og er birt á heimasíðu skólans. Punktakerfið er birt í bekkjarnámskrám unglingastigs. Á kynningarfundum í september er SMT-skólafærni og punktakerfið kynnt fyrir foreldum.

Ferðalög

Almennar skólareglur gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans. Fari nemandi ekki eftir reglum skólans á ferðalögum er haft samband við foreldra.

Íþróttahús og sundlaug

Í íþróttahúsi og sundlaug gilda almennar skólareglur en auk þess eftirfarandi reglur:

Íþróttahús

  • Nemendur fá að fara inn í búningsklefa 5 mínútum fyrir kennslustund.
    • Nemendur bíða í klefanum þar til kennarinn sækir þá. Ekki er heimilt að fara fram á gang áður en kennsla hefst.
  • Nemendum ber að forðast óþarfa hávaða s.s. hróp og köll, einnig ber að forðast hlaup og stympingar á göngum og í búningsklefum.
  • Nemendur baði sig að loknum íþróttatíma nema foreldrar/forráðamenn semji um annað við íþróttakennara.
  • Nemendur gangi snyrtilega frá fötum sínum í búningsklefum, hengi þau upp og gæti þess að ekkert verði eftir í lok tímans.

Sundlaug

  1. Yngri nemendur bíða á bekk við suðurvegg í forstofu, eða á kaffistofu ef ekki er pláss á bekk. Unglinga- og miðstig mæta 5 mínútum fyrir byrjun tíma í forstofu sundlaugarinnar.
  2. Kennari tekur við nemendum í forstofu og merkir við. Komi nemandi of seint í tíma verður hann að fá leyfi starfsfólks til að fara ofan í.
  3. Nemendum er óheimilt að kaupa sig ofan í laug áður en sundkennsla hefst.
  4. Nemendur setja skó í skóhillur og ganga vel frá fatnaði í körfur í búningsklefum. Nemendur eiga að vera í inniklefum.
  5. Allir nemendur verða að þvo sér með sápu áður en farið er í laug.
  6. Nemendur verða að þurrka sér vel, sérstaklega þegar kalt er í veðri og nota húfur þegar farið er heim.
  7. Nemendur eiga að nota sundklæðnað (sundbol og sundskýlu), stuttbuxur og strandbuxur eru ekki sundföt.
  8. Nemendum ber að sýna starfsfólki tillitssemi og hlýðni í einu og öllu.
  1. Nemendum er óheimilt að vera með tyggjó í sundi.