Upplýsingar frá skólastjórnendum

Það þyngist róðurinn hér hjá okkur í Lundarskóla þar sem smitum hefur fjölgað í starfsmannahópnum. Nú eru fjögur virk smit hjá starfsfólki og eru þau öll hjá einstaklingum sem fóru í sóttkví um síðustu helgi. Hópur starfsfólks og nemenda er nú í sóttkví og áætlað er að allir sem eru í sóttkví fari í skimun á föstudaginn næsta þann 6.nóvember.

Í Lundarskóla er gætt vel að sóttvörnum og hólfaskipting mikil. Eins og staðan er nú þá búum við vel að því þar sem öll smitin eru hjá einstaklingum í sama sóttvarnarhólfi og við vonumst til að það haldist þannig.

Í skólasamfélaginu okkar eru mikil vina- og fjölskyldutengsl á milli einstaklinga utan skólans hvort sem um ræðir starfsfólk eða nemendur og fjölskyldur. Við biðjum því alla að huga vel að eigin heilsufari og vera heima ef einkenni gera vart við sig. Einnig er mikilvægt að virða sóttkví og sóttvarnir ásamt því að fylgja reglum almannavarna.

Ef einhver finnur fyrir einkennum er mikilvægt að panta tíma í skimun á https://www.heilsuvera.is/. og/eða hafa samband við heilsugæsluna. Einnig þarf að láta stjórnendur eða ritara skólans vita.
Til að skólastarf í Lundarskóla gangi vel þurfum við að vinna saman og hlúa vel að heilsufari allra sem koma að skólasamfélaginu. Því þurfum við öll að gæta varúðar, virða sóttvarnir og vera heima ef vafi leikur á smitum í allra nánasta umhverfi.

Á þessum tímum erum við í ólgusjó og við verðum að styðja hvort annað í leik og starfi, sýna umburðarlyndi og æðruleysi.

Við stöndum saman í þessu.

Kær kveðja skólastjórnendur Lundarskóla,
Elías, Fjóla Dögg og Maríanna.