Fréttir

Gleðilega páska

Við viljum þakka ykkur kærlega fyrir komuna á árshátíðina okkar í síðustu viku. Nemendur og starfsfólk eiga hrós skilið fyrir góðan undirbúning og skemmtilegar sýningar þar sem bæði litlir og stórir sigrar voru unnir. Það er von okkar að foreldrar hafi notið þess að koma í skólann til okkar og horfa á atriðin sem nemendur buðu upp á. Við mætum aftur til starfa eftir páskafrí þriðjudaginn 2. apríl og kennsla hefst þá samkvæmt stundaskrá. Í apríl er lítið um uppbrot frá hefðbundnu skólastarfi en fimmtudaginn 25.apríl er þó frídagur þar sem við bjóðum sumarið velkomið. Við vonum að þið eigið í vændum notalegt frí. Páskakveðjur úr Lundarskóla

Lundarskóli sigrar Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri

Í gær fór Upphátt fram í Hofi þar sem 14 keppendur tóku þátt eða tveir frá hverjum skóla, keppnin var mjög jöfn og ljóst að þátttakendur höfðu lagt mikið á sig við undirbúning og æfingar. Við áttum þar tvo mjög svo frambærilega þátttakendur eins og fyrri ár sem stóðu sig svo sannarlega vel. Í skólastarfinu viljum við ná árangri og þurfum til þess að sýna metnað, þrautseigju og vilja til þess að gera vel og það gerðu þeir svo sannarlega.